Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 490  —  452. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um að fordæma aðgerðir Ísraelshers í Palestínu og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum.


Flm.: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Kristrún Frostadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Jódís Skúladóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Logi Einarsson, Björn Leví Gunnarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Oddný G. Harðardóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Eyjólfur Ármannsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að fordæma árásir Ísraelshers á óbreytta borgara, sjúkrahús, skóla og aðra borgaralega innviði í Palestínu sem hófust 7. október 2023 í kjölfar árása Hamas-samtakanna á ísraelska borgara. Alþingi ályktar einnig að fela utanríkisráðherra að kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum til þess að koma megi neyðarvistum og læknisaðstoð til íbúa Gaza og í framhaldinu stöðva átök á svæðinu, í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 26. október 2023.

Greinargerð.


    Að morgni 7. október gerðu Hamas-samtökin hryðjuverkaárás á óbreytta borgara í Ísrael þar sem 1400 voru myrtir og 200 manns teknir í gíslingu. Síðan þá hefur Ísraelsher beitt linnulausum loftárásum á Gaza og allsherjarinnrás af landi inn á Gaza er hafin. Alþingi samþykkti einróma árið 2011 að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna eins og þau voru fyrir sex daga stríðið árið 1967. Með því varð Ísland fyrst vestrænna ríkja til að svara kalli Palestínu eftir stuðningi um að verða fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar, réttilega, fordæmt árásir Hamas-samtakanna á ísraelska borgara en látið hjá líða að fordæma viðbrögð ísraelskra stjórnvalda sem hafa farið fram úr öllu hófi og brjóta bersýnilega gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og öðrum alþjóðalögum. Þá sat Ísland hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um ákall um tafarlaust vopnahlé á Gaza á neyðarfundi þingsins hinn 26. október síðastliðinn. Með þingsályktunartillögu þessari vilja flutningsmenn koma afstöðu Íslands skýrlega til skila og gera afdráttarlausa kröfu um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum. Þá er nauðsynlegt að koma á framfæri fordæmingu á árásum Ísraelshers á óbreytta borgara, sjúkrahús, skóla og aðra borgaralega innviði í Palestínu.
    Utanríkisráðherra hefur ákveðið að svara kalli Sameinuðu þjóðanna um framlög til neyðaraðstoðar í Palestínu með 70 millj. kr. framlagi frá íslenskum stjórnvöldum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Framlagið bætist við reglubundið framlag Íslands til stofnunarinnar, sem er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir vopnahléi af mannúðarástæðum. Stofnanirnar kalla eftir því að tryggð sé óheft mannúðaraðstoð til Gaza tafarlaust og að hjálparsamtökum sé gert kleift að komast til óbreyttra borgara í neyð, bjarga mannslífum og koma í veg fyrir frekari þjáningar. Stofnanirnar ítreka að mannúðaraðstoðin verði að vera umfangsmikil og viðvarandi og gera öllum íbúum Gaza kleift að halda mannlegri reisn. Þær kalla eftir öruggu og stöðugu aðgengi að vatni, mat og heilbrigðisþjónustu, þar á meðal kynheilbrigðisþjónustu, og eldsneyti, sem er ómissandi til að veita nauðsynlega þjónustu. Stofnanirnar kalla eftir vernd allra óbreyttra borgara og borgaralegra innviða á Gaza, þar á meðal heilbrigðisstofnana. Kallað er eftir vernd starfsfólks hjálparsamtaka sem leggur líf sitt í hættu við að þjónusta fólk í neyð og að lokum er kallað eftir því að alþjóðleg mannúðarlög séu virt af öllum aðilum. 1
    António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur einnig kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum. Guterres fordæmdi árásir Hamas hinn 7. október en hann benti jafnframt á að árásirnar hefðu ekki átt sér stað í tómarúmi heldur í skugga fimmtíu og sex ára hernáms Ísraels í Palestínu. 2 Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, hefur einnig kallað eftir vopnahléi af mannúðarástæðum. 3
    Í 4. tölul. 2. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram sú meginregla þjóðaréttar að ríki skuli varast að beita valdi gagnvart öðru ríki. Undantekningu á þeirri reglu má finna í 51. gr. sama sáttmála, sem kveður á um órjúfanlegan rétt ríkis til sjálfsvarnar. Rétti ríkja til sjálfsvarnar eru þó settar þær skorður að aðgerðirnar þurfa að vera nauðsynlegar til að tryggja öryggi og í eðlilegu samræmi við árásina sem brugðist er við. Ísraelsher hefur beitt sér með fordæmalausu offorsi frá því átökin hófust. Þegar þetta er skrifað hafa yfir 7.000 Palestínumenn látið lífið, meiri hlutinn konur og börn, og yfir 17.000 manns hafa særst. 1,4 milljónir manna eru á vergangi. Fjölmargir skólar, spítalar og aðrar opinberar byggingar hafa verið jafnaðar við jörðu. Ísraelsher hefur beitt hvítum fosfórsprengjum gegn almennum borgurum á Gaza og í Líbanon, sem setur þá í beina hættu. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarrétti er það stríðsglæpur að beita hóprefsingu. Þá njóta almennir borgarar, sjúkrahús, skólar og trúarbyggingar sérstakrar verndar í mannúðarrétti. Síðast en ekki síst er ólögmætt að valda þarflausri eyðileggingu eða þjáningum, jafnvel í stríði.
    Ísraelsríki stýrir flæði vatns, rafmagns, eldsneytis og fleiri lífsnauðsynja inn á Gaza-svæðið. Almennir borgarar sem hafa verið lagðir inn á spítala eiga á hættu að verða enn verr úti ef ekki er unnt að knýja öndunarvélar og tryggja birtu við skurðaðgerðir og fleiri lífsnauðsynlegar læknisfræðilegar meðferðir. Þá stendur óléttum konum, sér í lagi þeim sem eiga stutt eftir í settan dag, mikil hætta af því að geta ekki leitað eftir læknisaðstoð. Mikil heilsufarsógn almennra borgara stafar af skorti á hreinu drykkjarvatni til lengri tíma. Árásir Ísraelshers á almenna palestínska borgara og takmörkun á nauðsynjum fela í sér ólögmætar ofsóknir eins þjóðríkis gagnvart almennum borgurum annars. Þær fela í sér víðtæk mannréttindabrot og stríða gegn öllum þeim almennu mannréttindasamningum sem stjórnvöldum ber að starfa eftir. Það hefur sjaldan verið jafn ærið tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi og fordæma aðgerðir Ísraelshers gagnvart Palestínu.
1     „Joint statement by UNDP, UNFPA, UNICEF, WFP and WHO on humanitarian supplies crossing into Gaza.“
www.who.int/news/item/21-10-2023-joint-statement-by-undp--unfpa--unicef--wfp-and-who-on-humanitarian-supplies-crossing-into-gaza
2     „ Secretary-General's remarks to the Security Council - on the Middle East | United Nations Secretary-General“
www.un.org/sg/en/content/sg/speeches/2023-10-24/secretary-generals-remarks-the-security-council-the-middle-east%C2%A0
3     www.politico.eu/article/pedro-sanchez-spain-humanitarian-ceasefire-gaza-israel-hamas-war/